Vel sóttur fundur FVH um einkavæðingu bankanna

Félag viðskipta- og hagfræðinga hélt hádegisverðarfund á Fosshóteli Reykjavík í dag miðvikudaginn 20. janúar. Efni fundarins var einkavæðing bankanna sem nú stendur fyrir dyrum. Mjög góð mæting var á fundinn – um 115 fundargestir. Gylfi Magnússon dósent við Háskóla Íslands hélt yfirgripserindi um einkavæðingu í u.þ.b. 25 mínútur þar sem hann fór yfir hvaða þætti væri mikilvægast að hafa til hliðsjónar. Í erindi Gylfa kom fram að nauðsynlegt væri að eiginfjárhlutföll banka væru há, jafnvel 20-25%, til þess að koma í veg fyrir að þeir lentu í vandræðum á erfiðum tímum. Jafnframt fjallaði Gylfi um kosti og galla aðskilnaðar á viðskipta- og fjárfestingarstarfsemi og einnig um eigandastefnu, þ.e.a.s. dreift eignarhald og kjölfestueignarhluti. Í máli Gylfa kom fram að vegna stærðar íslensku bankanna þriggja væri ekki raunhæft að lífeyrissjóðirnir gætu verið stórir hluthafar í þeim öllum – það væri of áhættusamt fyrir sjóðina. Gylfi telur að skýr, gagnsæ og vönduð einkavæðingarstefna þurfi að liggja fyrir áður en ríkið hefur sölu á hluta í bönkunum. Hér má lesa grein af Kjarnanum þar sem Gylfi fjallar um þetta mál.

Á fundinn mættu um 115 manns
Á fundinn mættu um 115 manns

Í pallborðsumræðum á eftir erindi Gylfa tóku þátt Salvör Nordal frá Siðfræðistofnun Háskóla Íslands, Þorsteinn Víglundsson stjórnarformaður Gildis lífeyrissjóðs, Jón Gunnar Jónsson forstjóri Bankasýslu ríkisins og Páll Harðarson frá Kauphöll Íslands. Eva Halldórsdóttir lögmaður var fundarstjóri á fundinum og stýrði pallborðsumræðum. Salvör Nordal ítrekaði mikilvægi þess að vandað yrði til verka við komandi einkavæðingu. Hún sagði að læra þyrfti af mistökunum í einkavæðingunni árin 2002 og 2003 þar sem algerlega skorti á stefnufestu og gagnsæi. Jón Gunnar Jónsson vísaði í að Bankasýslan hefði nýverið gefið út skýrslu til stjórnvalda um einkavæðingaráform, þ.m.t. sölu á hlut í Landsbanka Íslands. Bankasýslan leggur til að ríkið selji allt að 28,2% hlut í Landsbankanum á þessu ári. Páll Harðarson taldi að til langs tíma ætti ríkið að selja alla sína eignarhluti í bönkunum og vísaði til reynslu nágrannalandanna þar sem sala á bönkum væri víða hafin. Páll taldi þó að ríkið ætti að gefa sér þann tíma sem þyrfti til að klára söluna – jafnvel gæti salan tekið mörg ár. Þorsteinn Víglundsson lagði áherslu á að reglur um starfsemi bankanna væru nú þegar mun strangari en áður var og almennt væru fyrirtæki á Íslandi betur fjármagnaðari. Viðskiptaumhverfið væri því betur í stakk búið til að takast á við einkavæðingu en áður og vildi Þorsteinn sjá einkavæðinguna hefjast sem fyrst jafnvel þótt hún kynni að taka langan tíma.

Nokkrar góðar spurningar komu úr sal. Steingrímur J. Sigfússon fyrrverandi fjármálaráðherra benti á að söluandvirði af hugsanlegri sölu á Arion banka væri hluti af stöðugleikaframlagi til ríkisins og því ætti ríkið að flýta sér hægt við einkavæðingu á Landsbankanum til að lenda ekki með einkavæðinguna á sama tíma og söluna á Arion banka. Nokkrar aðrar spurningar komu úr sal, m.a. frá Pétri Einarssyni fv. forstjóra Straums fjárfestingarbanka.
Fundi var slitið um kl 13:10.

Hér fyrir neðan má sjá myndir frá fundinum.

IMG_5881

IMG_5878

IMG_5870

IMG_5861