Félag viðskiptafræðinga og hagfræðinga (FVH) verðlaunaði þekkingarfyrirtæki ársins og hagfræðing ársins við hátíðlega athöfn í gær. Verðlaunin eru veitt árlega en forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson afhenti verðlaunin að þessu sinni. Þema þekkingarverðlaunanna í ár var „fagmennska og færni í ferðaþjónustu“ . Þrjú fyrirtæki voru tilnefnd af sérstakri dómnefnd sem FVH skipaði og var Anna Dóra Sæþórsdóttir, prófessor í ferðamálafræði við Háskóla Íslands formaður hennar. Þau þrjú fyrirtæki sem hlutu tilnefningu til verðlaunanna voru Bláa lónið, Norðursigling ogÍslenskir fjallaleiðsögumenn en Bláa lónið hlaut að þessu sinni þekkingarverðlaunin fyrir afar mentaðarfullt starf.
Guðni Th. Jóhannesson veitti verðlaunin fyrir hönd FVH og ræddi hann aðeins ferðaþjónustuna á Íslandi sem hann sagði standa á tímamótum. Hann vildi þó meina að útlitið væri kannski ekki alveg eins svart og það sýndist oft í fréttum og fyrirsögnum og sagði „þetta er alltaf sama gamla sagan, við þurfum vissulega að vera á varðbergi en passa okkur þó að taka ekki einhverjar róttækar ákvarðanir sem eru byggðar á svörtustu sýninni“.
Sölvi Blöndal, hagfræðingur hjá Gamma, var valinn hagfræðingur ársins en stjórn FVH valdi hagfræðing ársins úr tilnefningum frá félagsmönnum. Sölvi er kannski flestum kunnur sem Sölvi úr Quarashi en hann hefur unnið ötult starf um árabil hjá Gamma. Við móttöku verðlaunanna sagði Sölvi að hann hefði sjálfur aldrei trúað því fyrir 10 árum að hann myndi taka við verðlaunum sem hagfræðingur ársins, þar sem öll þau verðlaun sem hann hafi tekið við hingað til hefðu verið vegna tónlistarinnar. Sölvi hamraði svo á því að hagfræðingar væru mikilvægir fyrir samfélagið og sagði að stéttin þyrfti að vera dugleg að tjá sig opinberlega og segja frá niðurstöðum sinna greininga þó svo að þær ættu ekki alltaf uppá pallborðið og það geti verið erfitt að tala á móti straumnum. „Hagfræðin er lykillinn í því að taka góðar ákvarðanir hvort sem það er fyrir einstaklinga eða okkur öll sem heild“ -segir Sölvi.
Hér fyrir neðan má lesa rökstuðning dómnefndanna, annars vegar fyrir Þekkingarfyrirtæki ársins og hins vegar hagfræðing ársins.
Rökstuðningur dómnefndar – Hagfræðingur ársins
Sölvi lauk B.Sc. prófi í hagfræði frá Háskóla Íslands með áherslu á verðmyndun á fasteignamarkaði. Sölvi lauk síðan M.Sc. prófi í hagfræði frá háskólanum í Stokkhólmi árið 2010. Á árunum 2010-2011 stundaði Sölvi rannsóknir á fasteignaverði í Stokkhólmi og frá febrúar 2012 hefur Sölvi haft doktorsstöðu við Háskólann í Stokhólmi með rannsóknir á fjármála og fasteignabólum í Skandinavíu sem viðfangsefni.
Sölvi Blöndal hefur um árabil starfað sem hagfræðingur hjá Gamma og hefur hann yfirgripsmikla þekkingu á íslenskum fasteignamarkaði og hefur verið stefnumótandi hjá því fyrirtæki.
Um mitt síðasta ár festi Sölvi sig rækilega í sessi á íslenskum tónlistarmarkaði þegar hann stofnaði Öldu, nýtt útgáfufyrirtæki sem tók yfir tónlistarhluta Senu og hefur síðan fengið til sín stór nöfn í íslenskri tónlist og er hann því mjög áhrifamikill í íslensku tónlistarlífi.
Sölvi situr einnig í stjórn E7 sem starfrækir 23 hljóðver með mörgum af helstu tónlistarmönnum og framleiðsluaðilum landsins. Reynslan af E7 hefur sýnt að samlegðaráhrif hafa haft afar jákvæð áhrif, einkum þegar um frumkvöðlastarfsemi er að ræða. Starfsemin á E7 er sú stærsta sinnar tegundar á Íslandi.
Að auki hefur Sölvi átt glæstan tónlistarferil og kom hann Quarashi upp á stjörnuhimininn um víða veröld og hefur sú hljómsveit átt eftirtektarverða endurkomu undanfarin ár.
Það verður áhugavert að sjá Sölva koma enn sterkar inn með kraft og nýjar nálganir í tónlistariðnaðinn á Íslandi.
Rökstuðningur dómnefndar – Þekkingarfyrirtæki ársins
Til grundvallar vali á þekkingarfyrirtæki ársins á sviði ferðaþjónustu setti dómnefnd fram nokkra matsþætti og greindi fyrirtæki eftir því hversu vel þau uppfylltu eða höfðu tileinkað sér þá þætti. Það sem vó mest í mati dómnefndar voru markviss miðlun þekkingar til starfsmanna og gesta, gæðamál, fagmennska, stefna í umhverfismálum auk samfélagslegrar ábyrgðar í því nærumhverfi sem fyrirtækin starfa.
Upphaflega voru öll ferðaþjónustufyrirtæki á landinu undir. Síðan greindi dómnefnd ítarlega 20 þeirra eftir þeim matsþáttum sem hún hafði skilgreint. Þau fimm fyrirtæki sem komu best út úr því mati voru síðan heimsótt sérstaklega og fór dómnefndin vítt og breitt um landið í því skyni. Að því loknu voru þrjú fyrirtækjanna tilnefnd formlega og að lokum var eitt þekkingarfyrirtæki ársins valið úr þeim hópi en það var Bláa lónið.
Þekkingarfyrirtæki ársins hefur verið brautryðjandi á mörgum sviðum og þá sérstaklega þegar kemur að miðlun þekkingar og þjálfun starfsmanna. Hjá fyrirtækinu starfa í dag hátt í 600 manns af 26 þjóðernum og til stendur að ráða 165 nýja starfsmenn á næstunni. Þjálfun og eftirfylgni við starfsmenn er því eðlilega stór og mikilvægur þáttur í allri starfsemi Bláa lónsins. Til þess að hámarka upplýsingaflæði og innri samskipti hefur fyrirtækið tekið upp samskiptakerfið Workplace til innri upplýsingamiðlunar. Í hraðri uppbyggingu og stöðugum breytingum er mikilvægt að allir gangi í takt og er því mikilvægt að upplýsingar komist hratt og örugglega til skila. Markmið Bláa lónsins er að starfsmenn fái tækifæri til að vaxa með fyrirtækinu og eru starfsmenn hvattir áfram til náms, ýmist sem hægt er að stunda á staðnum eða fara til útlanda í þjálfun ef svo ber undir. Þannig hefur fyrirtækið lagt kapp á að byggja upp vinnustað sem samanstendur af öflugri liðsheild og stoltum starfsmönnum. Þetta hefur fyrirtækið mælt reglulega auk annarra þátta sem það hefur nýtt til að bæta reksturinn og umhverfið sitt.
Bláa lónið hefur skýra og metnaðarfulla stefnu á sviði gæða-, umhverfis- og öryggismála og heldur úti reglulegum æfingum með öllum helstu viðbragðsaðilum. Þá er fyrirtækið með nokkrar vottanir og er þátttakandi í gæðakerfum s.s Vakanum, ISO 9001, Bláfána, food safety esmiley og HACCP, svo einhver þeirra séu nefnd.
Samfélagsábyrgð er þekkingafyrirtæki ársins hugleikin og hefur það markvisst ásett sér að vera þátttakandi í þeim verkefnum sem stuðla að þróun, uppbyggingu, aukinni þekkingu og gæðum í ferðaþjónustu. Þannig er fyrirtækið ýmist bakhjarl, styrktaraðili, stofnandi eða þátttakandi í ýmsum mikilvægum verkefnum s.s Startup Tourism, Safetravel, Íslenska ferðaklasanum, Ábyrgri ferðaþjónustu og er aðili að Samtökum ferðaþjónustunnar.
Á síðustu árum hefur þekkingafyrirtæki ársins vaxið hratt og hafa því fylgt nýjar áskoranir sem hafa kallað á þróun nýrra lausna sem krefjast hugkvæmni og þekkingar. Starfsmenn Bláa lónsins þróuðu t.d. aðgangsstýringakerfi sem jafnar álag gesta að áfangastaðnum og bætir þar með nýtingu rekstarfjármuna og mannauðs. Að auki er stunduð öflug vöruþróun bæði í heilsuvörum og matvælum en fjórir vísindamenn starfa hjá fyrirtækinu við að hámarka verðmætasköpum úr aukaafurðum sem falla til í framleiðslunni s.s úr þörungum og kísil sem ætlað er að bæta heilsu manna.
Með ofangreindan rökstuðning að leiðarljósi var það einróma álit dómnefndar að tilnefna Bláa lónið sem þekkingafyrirtæki ársins.