ORF Líftækni, Carbon Recycling International (CRI) og Kerecis eru tilnefnd til Íslensku þekkingarverðlaunanna 2015.

ORF Líftækni, Carbon Recycling International (CRI) og Kerecis hafa verið tilnefnd til Íslensku þekkingarverðlaunanna sem afhent verða á Íslenska þekkingardeginum þann 20. mars. Yfirskrift verðlaunanna er: verðmætasköpun með óhefðbundinni nýtingu auðlinda. Við valið var haft til hliðsjónar hvernig fyrirtækin hafa í krafti nýsköpunar fundið og þróað leiðir til að bæta nýtingu á auðlindum landsins með því að búa til nýjar afurðir úr verðlitlum efnivið sem að fellur til við hefðbundna nýtingu.

Það voru félagsmenn FVH og dómnefnd sem völdu fyrirtækin þrjú en dómnefndin er skipuð valinkunnum sérfræðingum úr íslensku viðskiptalífi.

Íslensku þekkingarverðlaunin verða afhent hinn 20. mars á Grand hótel á Íslenska þekkingardeginum en dagurinn samanstendur af ráðstefnu og samkomu milli kl.14-17 þar sem áhersla verður lögð á nýsköpun í auðlindanýtingu. Auk þess verða veitt verðlaun til þess viðskiptafræðings eða hagfræðings sem þykir hafa skarað fram úr á liðnu ári. Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, mun afhenda verðlaunin en hann er verndari Íslenska þekkingardagsins.