Ölgerðin þekkingarfyrirtæki FVH

fvh_ljosmyndir-1 tilnefndir fyrir vefFélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga (FVH) hefur valið Ölgerðina sem þekkingarfyrirtæki ársins en Össur, Já og LS Retail voru tilnefnd til verðlaunanna. Hér er rökstuðningur dómnefndar:

Ölgerðin er með einstaklega skýra stefnu og hefur náð eftirtektarverðum árangri í starfsemi sinni. Stefnan endurspeglar mikinn metnað en um leið er stigið varlega til jarðar og þess gætt að fyrirtækið færist ekki of mikið í fang.

Ölgerðin er til fyrirmyndar í stjórnarháttum og fékk t.a.m. jafnlaunavottun VR á sl. ári og vinnur að því að jafna kynjahlutfall innan fyrirtækisins. Könnun á ánægju starfsmanna er framkvæmd fjórum sinnum á ári og hafa niðurstöður verið góðar. Hvað varðar samfélagslega ábyrgð þá er starfandi samfélagsstjóri innan fyrirtækisins sem sinnir málaflokknum. Á síðasta ári voru 100 verkefni tengd samfélagsábyrgð í gangi, m.a. á sviði umhverfismála og samfélagsmála.

Þáttur rannsókna og þróunar hefur verið stór þáttur í starfi Ölgerðarinnar síðastliðin 100 ár og að sögn stjórnenda samofin starfsemi allra deilda fyrirtækisins. Fyrirtækið leggur mikla áherslu á nýsköpun bæði hvað varðar vöruþróun og innri ferla. Það er eitt af markmiðum fyrirtækisins að ákveðið hlutfall af veltu sé af nýjum vörum.Ölgerðin hefur nýtt sér nýsköpun til að afla nýrra markaða og tekjupósta og má í því sambandi nefna Borg brugghús, Bjórskólann, Vínskólann og þróunarsamvinnu með bakarameisturum á heilsuamlegri á brauðum. Í ljósi breytts neyslumynsturs landans hefur Ölgerðin lagt meiri áherslu á að þróa og markaðssetja vörur sem eru heilsusamlegri t.d. með kolsýrðum vatnsdrykkjum eins og Kristal, og ýmis konar heilsu- og safadrykkjum.

Ölgerðin er jafnframt komin með fingurna í ferðaþjónustu þar sem fyrirtækið tekur í auknum mæli á móti erlendum hópum í vínsmökkun undir yfirskriftinni „taste the saga“.

Þær aðgerðir sem einkum þykja hafa skilað árangri í nýsköpun síðastliðin ár er að Ölgerðin setti sér það markmið að skapa umhverfi sem þorir og vill taka áhættur, viðurkennir mistök og lærir af þeim. Reksturinn hefur breyst nokkuð undanfarin ár einkum við sameiningu Ölgerðarinnar við Danól árið 2008 og varð við það eitt stærsta fyrirtæki landsins á sviði matvælaframleiðslu og innflutnings. Í dag er fyrirtækið í framleiðslu eigin vörumerkja (38%), framleiðslu erlendra vörumerkja (19%) og í innflutningi (43%).

Að öllu framansögðu teljum við fyrirtækið lýsandi dæmi um hvernig nýsköpun getur skilað rótgrónum fyrirtækjum miklum ávinningi og tryggt þeim endurnýjun lífdaga. Fyrirtækið er eins og 100 ára gamall unglingur.

Við val á Þekkingarfyrirtæki ársins er leitað eftir áliti félagsmanna FVH en endanleg ákvörðun er í höndum dómnefndar. Í dómnefnd sátu Dögg Hjaltalín, stjórnarkona í FVH, Valdimar Halldórsson, stjórnarmaður í FVH, Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA, Guðmunda Smáradóttir, forstöðumaður hjá Opna háskólanum og Ásta Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri Sinnum heimaþjónustu. Andri Þór Guðmundsson