Kerecis hlýtur Íslensku þekkingarverðlaunin 2015

Kerecis hlaut Íslensku þekkingarverðlaunin í ár en Kerecis ásamt ORF Líftækni og Carbon Recycling International voru tilnefnd til þekkingarverðlauna Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga (FVH). Forseti Íslands og verndari verðlaunanna, Ólafur Ragnar Grímsson, afhenti verðlaunin við hátíðlega athöfn á Íslenska þekkingardeginum sem haldinn var föstudaginn 20 mars.

Yfirskrift verðlaunanna í ár var: verðmætasköpun með óhefðbundinni nýtingu auðlinda. Við valið var haft til hliðsjónar hvernig fyrirtækin hafa í krafti nýsköpunar fundið og þróað leiðir til að bæta nýtingu á auðlindum landsins með því að búa til nýjar afurðir úr verðlitlum efnivið sem að fellur til við hefðbundna nýtingu.

Í rökstuðningi dómnefndar segir meðal annars:

Kerecis er gott dæmi um fyrirtæki sem byggir á hugviti og nær þannig að skapa mikil verðmæti úr náttúrulegri afurð sem fellur til við aðra nýtingu. Kerecis Omega 3 sárameðhöndlunarefnið er affrumað þorskroð sem er notað til að meðhöndla alvarleg sár. Kerecis hefur þróað og verndað með einkleyfum tækni til að búa til stoðefni úr íslensku þorskroði. Kerecis keppir við stoðefni sem m.a. eru búin til úr mannshúð, svínahúð og svínaþörmum. Fyrirtækið framleiðir einnig húðmeðhöndlunarefni undir vörumerkinu Kerecis mOmega3 sem seld eru í lyfjaverslunum um land allt og notuð eru á fjölmörgum heilbrigðisstofnunum.

Við val á Þekkingarfyrirtæki ársins er leitað eftir áliti félagsmanna FVH en endanleg ákvörðun er í höndum dómnefndar. Í dómnefnd sat stjórn FVH sem í eru: Dögg Hjaltalín, Edda Hermannsdóttir, Valdimar Halldórsson, Hjalti Rögnvaldsson, Magnús G. Erlendsson, Auðbjörg Ólafsdóttir, Birgir Már Guðmundsson og Sveinn Agnarsson.
Á meðfylgjandi mynd má sjá Guðmund F. Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Kerecis