Já, Ölgerðin, LS Retail og Össur tilnefnd til Íslensku þekkingarverðlaunanna

Já, Ölgerðin, LS Retail og Össur hafa verið tilnefnd til Íslensku þekkingarverðlaunanna sem afhent verða á Íslenska þekkingardeginum þann 14. mars. Yfirskrift verðlaunanna er: nýsköpun í rótgrónum fyrirtækjum og við valið var haft til hliðsjónar hvernig fyrirtækin hafa nýtt sér nýsköpun við að afla nýrra markaða og/eða nýrra tekjupósta.

Það voru félagsmenn FVH og dómnefnd sem völdu fyrirtækin fjögur, en dómnefndin er skipuð valinkunnum sérfræðingum úr íslensku viðskiptalífi.

Íslensku þekkingarverðlaunin verða afhent hinn 14. mars á Hilton hótel Nordica en dagurinn samanstendur af ráðstefnu milli kl.14-17 þar sem áhersla verður lögð á nýsköpun í rótgrónum fyrirtækjum. Auk þess verða veitt verðlaun til þess viðskiptafræðings eða hagfræðings sem þykir hafa skarað fram úr á liðnu ári. Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, mun afhenda verðlaunin en hann er verndari Íslenska þekkingardagsins.