Hádegisfundur 20.janúar – Einkavæðing bankanna – taka tvö!

Einkavæðing bankanna banner

Á árunum 2002 og 2003 seldi ríkið stærstan hlut sinn í Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands. Í hruninu sex árum síðar féllu bankarnir ásamt bróðurparti íslenska fjármálakerfisins.Sala bankanna og fall þeirra hefur síðan verið ítarlega skoðað og ýmsar spurningar vaknað um hvort rétt og faglega hafi verið staðið að einkavæðingu bankanna. Bankasýsla ríkisins hefur nú tilkynnt að til standi að ríkið selji allt að 30% af eignarhluta sínum í Landsbankanum hf. á árinu og einnig má gera ráð fyrir að ríkið selji af eign sinni í Íslandsbanka hf. á næstu misserum. En hvernig á að standa að sölunni á hlut ríkisins í viðskiptabönkunum? Mun verða lögð áhersla á að fá erlenda banka til að eignast hlut í bönkunum? Hvað má læra af fyrri einkavæðingu bankanna og hvað ber að varast?

Til þess að ræða þetta áhugaverða málefni hefur Félag viðskiptafræðinga og hagfræðinga fengið til liðs við sig Gylfa Magnússon dósent við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands til að kryfja málið á hádegisverðarfundi 20.janúar nk. á Fosshótel Reykjavík. Gylfi mun hefja fundinn á erindi um einkavæðingu bankanna og að erindinu loknu verða pallborðsumræður þar sem aðilar úr viðskiptalífinu munu bregðast við framsögu Gylfa og taka á efni fundarins frá ólíkum sjónarhólum.

Drög að dagskrá:
Staður: Fosshótel, Höfðatorgi
Tímasetning: Miðvikudagurinn 20. janúar 2016, kl 12:00-13:10.
Fundarstjóri: Eva Halldórsdóttir, lögmaður hjá Lögmönnum Lækjargötu
Framsögumaður: Gylfi Magnússon, Háskóli Íslands –  Erindið fjallar um aðferðafræði við einkavæðingu og hvað hægt er að læra af einkavæðingarferlinu 2002-2003.

Umræður í panel þar sem brugðist verður við erindi Gylfa.
– Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslu ríkisins
Þorsteinn Víglundsson, stjórnarformarður Gildis lífeyrissjóðs
Salvör Nordal, forstöðumaður Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands
Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar

Í lok fundar verða spurningar leyfðar úr sal og framsögumaður ásamt þátttakendum í panel verða til svara.

Áætluð fundarlok kl 13:10.
Fundurinn fer fram á Fosshótel Reykjavík, miðvikudaginn 20.janúar, milli 12:00-13:10. Við viljum benda fundargestum á að nýta sér bílastæðahús á Höfðatorgi en þaðan er innangengt inn á Fosshótel Reykjavík. Þátttökugjald er 3.950 kr. fyrir félagsmenn FVH og 5.950 kr. fyrir aðra og er hádegisverður innifalinn í verði fundarins.

Lokað hefur verið fyrir skráningu á fundinn.