Síðastliðna mánuði hefur FVH haldið úti metnaðarfullu kynningarstarfi fyrir unga viðskipta- og hagfræðinga, í þeim tilgangi að efla nýliðun í félaginu og auka þannig breidd og fjölbreytni félagsmanna. Boðið var upp á þrjá fundi í seríunni „Hvernig næ ég í draumadjobbið?“ sem haldnir voru á Kex Hostel. Mæting á fundina fór fram úr björtustu vonum og mættu um 100 manns á síðasta fundinn, auk fjölda sem hafa horft á upptöku af fundinum á netinu.
Í byrjun nýs árs er ætlun félagsins að auka enn virði FVH, bæði fyrir nýja sem og núverandi félagsmenn, með stofnun mentor-verkefnis. Slík verkefni hafa verið framkvæmd með góðum árangri á ýmsum vinnustöðum á Íslandi, en ekki verið áberandi hluti af félagsstarfi líkt og FVH. Pörun reyndari aðila við óreyndari og mentaðarfulla einstaklinga getur skapað virði og gefið báðum aðilum nýja sýn á sitt umhverfi.
Í janúar er áætlað að fara af stað með tilraunaverkefni þar sem stofnað verður til 10-15 mentor-sambanda. Leitum við því til félagsmanna sem hefðu áhuga á að bjóða sig fram sem mentor.
Verkefnið er þannig upp sett að paraðir yrðu saman óreyndari aðili við annan reyndari, og mælst til þess að þeir hittist um það bil einu sinni í mánuði yfir fjögurra mánaða tímabil, t.d yfir hádegisverð. Lögð væru til leiðbeinandi umræðuefni fyrir hvern fund, en þó er vonast til þess að einhverskonar tenging myndist og aðilar ræði það sem þeim er efst í huga hverju sinni. Umsjónarmaður verkefnisins verður ávallt til taks, og verður reglulega kannað hvernig þátttakendur upplifa prógrammið í þeim tilgangi að læra af og gera betur.
Við hvetjum alla sem telja sig vera efni í góðan mentor og hafa áhuga á að taka þátt í verkefninu að senda okkur póst á fvh@fvh.is. Einnig viljum við taka fram að ekki er horft til aldurs í þessu samhengi, heldur hvetjum við alla til þess að bjóða sig fram, því þannig er líklegast að réttur mentor finnist fyrir hvern nýliða.
Með von um góðar viðtökur,
Félag viðskiptafræðinga og hagfræðinga