Birna Einarsdóttir viðskiptafræðingur ársins 2013

Birna Einarsdóttir viðskiptafræðingur ársins 2013 fyrir vefFVH hefur valið Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka, sem viðskiptafræðing ársins 2013.

Við valið horfði dómnefnd meðal annars til þess að Birna hefur leitt uppbyggingu Íslandsbanka frá endurreisn bankans í lok árs 2008. Mikið hefur mætt á íslenskum bönkunum sem hafa orðið að sníða stakk sinn að gjörbreyttum rekstri, minnka umfang starfseminnar, koma að endurreisn fjölmargra fyrirtækja, verða hluthafar í nokkrum fyrirtækjum í óskyldum rekstri, endurvekja tiltrú á íslenskum verðbréfamarkaði, endurútreikna gengislán, opna á ný fyrir erlendar lántökur íslenskra fjármálafyrirtækja og aðstoða fyrirtæki og einstaklinga við að endurskipuleggja sín fjármál. Það eru því ærin verkefni sem hafa verið á borðinu hjá Birnu undanfarin ár.

Birna hefur verið góður fyrirliði þess liðs sem komið hefur að uppbyggingu Íslandsbanka. Góðir stjórnunarhæfileikar og leiðtogahæfni Birnu hafa komið vel í ljós á þessum erfiðu tímum og ágætur starfsandi hefur myndast innan bankans. Kannanir sýna ítrekað að bæði einstaklingar og fyrirtæki, telja bankann vera í fararbroddi og vera leiðandi í þjónustu í dag.  Afkoma bankans hefur verið góð og hefur fyrirtækið uppskorið árangur þeirra miklu og góðu vinnu starfsmanna sem lögð hefur verið að mörkum á undanförnum árum.

Það er mat dómnefndar að Birna Einarsdóttir sé vel að því komin að vera útnefnd viðskiptafræðingur ársins 2013.

Við val á viðskiptafræðingi eða hagfræðingi ársins er leitað eftir áliti félagsmanna FVH en endanleg ákvörðun er í höndum dómnefndar. Í dómnefnd sátu Örn Valdimarsson, formaður FVH, Auður Björk Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri hjá VÍS, Jón G. Hauksson, ritstjóri Frjálsrar verslunar, Margrét Guðmundsdóttir forstjóri Icepharma og Jafet Ólafsson, viðskiptafræðingur.