Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, var valin viðskiptafræðingur ársins 2015 af Félagi viðskiptafræðinga og hagfræðinga (FVH). Forseti Íslands og verndari verðlaunanna, Ólafur Ragnar Grímsson, afhenti verðlaunin við hátíðlega athöfn á Íslenska þekkingardeginum, föstudaginn 20 mars.
Í rökstuðningi dómnefndar segir meðal annars:
Árni er með Cand. oecon próf frá háskóla Íslands og MBA próf frá IMD í Sviss árið 2004. Árni hefur verið duglegur að sækja sér menntun en á síðasta ári tók hann námskeið í stjórnarmennsku einnig við IMD.
Árni Oddur tók við starfi forstjóra Marel síðla árs 2013 en sat þar áður í stjórn félagsins í átta ár, lengst af sem stjórnarformaður. Árni Oddur býr yfir alþjóðlegri reynslu og er hann nú stjórnarmaður í félaginu Fokker Technologies. Áður en Árni tók við núverandi starfi var hann forstjóri Eyris Invest og vann þar áður í Búnaðarbankanum.
Hjá Marel hefur mikið vatn runnið til sjávar á þeim tíma sem Árni Oddur hefur verið forstjóri og hefur hann leitt félagið gegnum miklar breytingar með nýsköpun og framsækni að leiðarljósi. Árið 2014 var ár breytinga í rekstri Marel en í upphafi ársins var ákveðið að ráðast í veigamiklar hagræðingaraðgerðir til þess að einfalda og straumlínulaga reksturinn. Hjá félaginu starfa yfir 4000 manns í yfir 30 löndum en hér á landi starfa um 500 manns. Þó enn sé margt óunnið þá hefur félaginu tekist að breyta miklu í rekstrinum á einu ári og hafa breytingarnar gengið vel og örugglega fyrir sig. Verksmiðjurnar sem áður voru 19 eru orðnar 14 og það mátti sjá jákvæð merki í uppgjöri ársins 2014. Rekstrarhagnaður jókst ásamt tekjum og hafa markaðsaðilar spáð fyrirtækinu góðu gengi ef áfram heldur sem horfir. Nýsköpun félagsins til að nýta afurðir betur ásamt því að nýta orku og vatn á hagkvæman hátt er að skila sér í rekstrinum. Það eru því spennandi tímar framundan hjá Marel.
Það er því mat dómnefndar að Árni Oddur Þórðarson sé vel að því kominn að vera útefndur viðskiptafræðingur ársins.
Við val á viðskiptafræðingi ársins er leitað eftir áliti félagsmanna FVH en endanleg ákvörðun er í höndum dómnefndar. Í dómnefnd sat stjórn FVH sem í eru: Dögg Hjaltalín, Edda Hermannsdóttir, Valdimar Halldórsson, Hjalti Rögnvaldsson, Magnús G. Erlendsson, Birgir Már Guðmundsson og Sveinn Agnarsson.
Á meðfylgjandi mynd má sjá fjölskyldu Árna Odds Þórðarsonar taka við verðlaununum fyrir hans hönd en hann var staddur erlendis.