Tilkynning Félags viðskipta- og hagfræðinga um drög að niðurfellingu laga um rétt manna til að kalla sig viðskiptafræðinga og hagfræðinga
Fyrr í vikunni birti ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra drög að lagabreytingum á ýmsum lögum vegna einföldunar regluverks. Þar á meðal er kveðið á um brottfall laga um rétt manna til að kalla sig viðskiptafræðinga eða hagfræðinga. Þessi drög að lagabreytingum voru lögð fram í kjölfar birtingar Samkeppnismats Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) á íslenskri ferðaþjónustu og byggingariðnaði, þar sem meðal annarra tillagna til úrbóta var endurskoðun á lögverndun starfsgreina.
OECD telur að endurskoða þurfi í heild sinni löggjöf um löggiltar starfsgreinar í þeim tilgangi að meta hver væru undirliggjandi markmið löggildingarinnar og hvort þær takmarkanir á atvinnufrelsi sem fælust í löggildingunni væru málefnalegar í ljósi markmiðanna. Félag viðskipta- og hagfræðinga tekur undir að framkvæma þurfi heildarendurskoðun á löggildingu starfsgreina á Íslandi, en ekkert bendir til þess að drög þessi að niðurfellingu laganna séu hluti af slíkri vegferð. Við heildarendurskoðun á löggildingu starfsheita væri sjálfsagt að líta á stöðu viðskipta- og hagfræðinga í því samhengi, og meta hvort tilefni sé til að vernda rétt fólks til að kalla sig þeim titlum.
Að því sögðu er það ekki réttur fólks til að kalla sig viðskipta- og hagfræðinga sem gefur starfsheitunum gildi sitt. Heldur er það menntunin sem liggur að baki fræðigráðunnar og sú þekkingin og færnin sem viðskipta- og hagfræðingarnir tileinka sér. Á þeim næstum 40 árum sem lög þessi hafa verið í gildi hefur íslenskt samfélag gjörbreyst og sömuleiðis þau störf sem viðskipta- og hagfræðingar sinna. Það er því ekki óeðlilegt að lögin séu tekin til endurskoðunar, en að fella niður lögin í heild sinni krefst frekari yfirlegu og samtals við félagsmenn að mati félagsins.
Lög um rétt manna til að kalla sig viðskiptafræðinga eða hagfræðinga hafa sterk tengsl við félagið, enda lögin tilkomin að tillögu þess frá árinu 1980. Félagsmenn hafa því margir hverjir sterka skoðun á frumvarpinu og þykir stjórn eðlilegast að gefa þeim tækifæri á að láta í ljós sína skoðun. Fyrr í vikunni var sendur tölvupóstur á félagsmenn og óskað eftir þeirra athugasemdum. Þá hefur stjórn óskað eftir fundi með Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, ráðherra málaflokksins, til þess að ræða málið frekar, og hefur hún orðið við þeirri beiðni.
Að loknu frekara samtali við félagsmenn og ráðherra mun stjórn senda frá sér umsögn um málið á Samráðsgátt stjórnvalda.