Félag viðskiptafræðinga og hagfræðinga (FVH) valdi þekkingarfyrirtæki ársins og viðskiptafræðing ársins þann 21.mars. Verðlaunin eru veitt árlega og voru í ár afhent við skemmtilega athöfn á Íslenska þekkingardeginum á Sjóminjasafni Reykjavíkur. Þema þekkingarverðlaunanna í ár var „mannauðsmál í víðum skilningi“. Þrjú fyrirtæki voru tilnefnd af sérstakri dómnefnd sem FVH skipaði og var Guðmunda Smáradóttir forstöðumaður Opna Háskólans í Reykjavík formaður hennar. Dómnefndin heimsótti nokkur fyrirtæki og valdi á endanum þrjú sem þóttu hafa skarað framúr á sviði mannauðsmála. Íslandsbanki hlaut að þessu sinni þekkingarverðlaunin fyrir mentaðarfullt starf innan bankans á sviði mannauðsmála. Hin tvö fyrirtækin sem voru tilnefnd voru upplýsingatæknifyrirtækið Kolibri og Reiknistofa bankanna.
Björgólfur Jóhannsson forstjóri Icelandair Group var valinn viðskiptafræðingur ársins 2016 fyrir góðan árangur við stjórn á einu stærsta og mikilvægasta fyrirtæki landsins. Stjórn FVH valdi viðskiptafræðing ársins, m.a. eftir tilnefningar frá félagsmönnum í gegnum tölvupóstlista félagsins.
Athöfnin hófst með því að fyrirtækin sem tilnefnd voru kynntu sína stefnu í mannauðsmálum og Árelía Eydís Guðmundsdóttir einn dómnefndarmanna og dósent við Háskóla Íslands rökstuddi niðurstöðu dómnefndar. Auðbjörg Ólafsdóttir, einn stjórnarmanna í FVH, stýrði fundinum af röggsemi.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands og verndari íslensku þekkingarverðlaunanna, afhenti Íslandsbanka þekkingarverðlaunin og heiðraði Björgólf Jóhannsson sem viðskiptafræðing ársins.
Athöfninni lauk með léttum veitingum.