Íslenskir lífeyrissjóðir eru fyrirferðamiklir á íslenskum fjármálamarkaði sem helstu eigendur skráðra verðbréfa bæði beint og óbeint og hefur verið gagnrýnt hversu umsvifamiklir þeir eru. Félag viðskiptafræðinga og hagfræðinga stendur fyrir hádegisverðarfundi 11. nóvember á Grand hótel um eignarhald lífeyrissjóða í íslensku atvinnulífi. Leitast verður við að svara spurningum á borð við hvort áhrif þeirra séu of mikil á litlum markaði og hvað sé til ráða.
Hersir Sigurgeirsson, dósent við viðskiptafræðideild HÍ fjallar um eignarhald á íslenskum hlutabréfamarkaði. Helgi Magnússon flytur erindi undir yfirskriftinni: eiga lífeyrissjóðirnir of mikið af atvinnulífinu á Íslandi?
Þátttakendur í pallborðsumræðum verða Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, fjárfestir og Magnús Halldórsson, blaðamaður á Kjarnanum. Fundarstjóri er Edda Hermannsdóttir, aðstoðarritstjóri Viðskiptablaðsins og stjórnarkona í FVH.
Hádegisverðarfundurinn verður haldin á Grand hótel frá kl.12:00 til 13:15 og er öllum opinn. Þátttökugjald er 3.950 kr. fyrir félagsmenn og 5.950 kr. fyrir aðra. Hádegisverður er innifalinn í verðinu. Skráningu lauk mánudaginn 10.nóvember.